Þórshöfn í Færeyjum er kannski ekki fyrsti staðurinn sem fólki dettur í hug þegar verið er að leita sér að spennandi borg til að hlaupa í.
En þar sem við sátum í stuttermabol í sólinni á grasbalanum við færeyska ráðhúsið eftir að hafa lokið maraþoni hjá frændum okkar var ekki hægt að hugsa sér nokkurn stað fegurri eða skemmtilegri fyrir hlaup.
Brekkur og lopapeysur
Við vorum þrjú frá Íslandi sem ákváðum snemma í febrúar að taka þátt í Þórshafnarmaraþoninu sem haldið er fyrstu helgina í júní ár hvert. Þegar við kynntum okkur leiðina og skoðuðum hæðarprófílinn sáum við að hefðbundnar maraþonæfingar á flatlendi myndu ekki gagnast okkur mikið. Brekkur og aftur brekkur var því mottóið á æfingatímabilinu.
Tvö af okkur voru að fara í fyrsta skipti til Færeyja en við vorum varla lent þegar við spurðum hvort annað af hverju í ósköpunum við hefðum ekki heimsótt nágranna okkar fyrr, því það er svo ótrúleg þægilegt og einfalt. Flugið var mun ódýrara en við höfðum haldið, fór frá Reykjavíkurflugvelli á þægilegum tíma dags og tók ekki nema rúmlega klukkustund. Við vorum því alveg laus við flugþreytu þegar við lentum í Færeyjum um hádegisbil á föstudegi.
Eftir að hafa komið okkur fyrir í fallegri íbúð í Bøkjarabrekku fórum við í SMS-verslunarmiðstöðina til að sækja hlaupagögnin. Þar var tekið vel á móti okkur af Robert stofnanda hlaupsins og Björt, þingkonu á færeyska lögþinginu, sem einnig er góður maraþonhlaupari og var þarna að afhenda rásnúmer.
Kvöldið fyrir hlaupið var mikið um að vera í Þórshöfn því þá var Mentanarnáttin sem er þeirra menningarnótt. Mikil stemming var í bænum, tónlist hljómaði úr öðru hverju húsi og söfn og verslanir opnar fram á nótt. Við fórum tiltölulega varlega í skemmtanahöldin en keyptum að sjálfsögðu færeyska lopapeysu. Hver man ekki eftir lopapeysunni sem Sara Lund var í í Forbrydelsen!
Sól og sumarblíða
Hlaupið hófst um hádegi daginn eftir á torginu fyrir framan ráðhúsið í miðbæ Þórshafnar. 150 þátttakendur frá 25 löndum ætluðu að spreyta sig á maraþoni en einnig var boðið upp á hálft maraþon og göngu.
Hlaupið byrjaði á skemmtilegum 8 kílómetra útsýnishring um Þórshöfn. Hlýtt var i veðri, „sólin bakaði og það var heitt að renna“ eins og segir á heimasíðu Bragðsins, hlaupaklúbbsins sem sér um skipulagningu hlaupsins.
Þegar komið er útúr bænum lá leiðin inn langan og djúpan fjörð, Kaldbaksbotn. Brekkunum tók að fjölga og voru þær margar hverjar mjög langar og aflíðandi uppávið og brattar niður hinumegin. Í hlaupinu er leiðin frá Þórshöfn hlaupin fram og til baka og í hvert skipti sem hlaupið er niður brekku er því er hægt að láta sig hlakka til þess að hlaupa upp hana seinni hluta hlaupsins.
Samkvæmt upplýsingum frá stjórnendum hlaupsins má gera ráð fyrir að vera 10-20 mínútum lengur að ljúka hlaupinu en við myndum vera á hraðri maraþonbraut. Þetta er því ekki „skjót ruta“ eins og sagt er á færeysku en upplifunin er einstök.
Gatan var lokuð fyrir allri umferð og fátt um sveitabæi eða aðra byggð á leið okkar og því engir á ferli nema við hlaupararnir. Náttúrufegurðin og kyrrðin var ólýsanleg. Við höfðum stórfenglegt útsýni yfir hafið, eyjarnar og fjöllin þar sem litlir lækir þræddu sig niður hlíðarnar.
Einn skemmtilegasti hluti leiðarinnar var þegar við komum í litla þorpið Kaldbak hinum megin í friðinum þar sem snúningspunkturinn var. Þar voru börn að leik og fólk að sinna sínum daglegu störfum en gaf sér þó tíma til að brosa til okkar og hvetja áfram.
Óvenjulegt stuðningslið
Það var ekki mikið af áhorfendum að fylgjast með hlaupinu enda Þórshöfn ekki mjög mannmörg og sumir sjálfsagt enn að jafna sig eftir fjörið kvöldið áður. Það mátti þó víða heyra kallað Heja Ísland eða Áfram Ísland og við elliheimilið í bænum höfðu „eldri brúkararnir“ komið sér vel fyrir og hvöttu okkur ákaft til dáða.
Kindurnar í hlíðum fjallanna stóðu sig einnig vel í hvatningunni og jörmuðu af ákafa. Þær voru fjölmargar á leiðinni og mikið af nýbornum lömbum. Það var greinilegt að mörgum af erlendu þáttakendunum þótti þetta mjög skemmtilegt og stoppuðu jafnvel til að taka myndir af þessum ullarklæddu stuðningsaðilum.
Í bröttustu brekkunni nálægt lokum hlaupsins mættum við færeyskum unglingum sem gerðu sér lítið fyrir og tóku víkingaklappið fyrir okkur sem virkaði eins og vítamínsprauta á þreytta Íslendinga.
Markið nálgast
Eftir snúningspunktinn tók við þægilegasti kafli hlaupins en fljótlega eftir að við komum aftur að botni fjarðarins tók róðurinn að þyngjast. Nú komu aftur brekkurnar sem við höfðum hlaupið fyrri hluta hlaupsins, þ.á.m. tvær þær stærstu og bröttustu.
Æfingarnar virtust hins vegar hafa skilað sér ágætlega og þó heimamenn væru greinilega mjög vanir brekkunum vorum við ekkert mikið síðri. Við vorum farin að hlakka til að fá verðlaunapeninginn glæsilega með Þórshamrinum um hálsinn og brunuðum upp stærstu brekkuna eins hratt og við komumst (semsagt ekki mjög hratt). Á toppnum var drykkjarstöð og áfanganum var fagnað með því að skála í vatni og orkudrykk við vinalegt og hvetjandi starfsfólkið.
Eftir þetta var leiðin fremur undan fæti aftur inn í miðbæ Þórshafnar þar sem hlaupið endaði á sama stað og það byrjaði. Gleðin var ósvikin og stemningin frábær á torginu og allt um kring. Sólin skein og við gátum slakað á og notið dagsins í frábæru veðri með nýju hlaupavinum okkar. Boðið var upp á bjór, fiskisúpu og köku eftir hlaupið og óhætt að segja að þessar höfðinglegu veitingar hafi verið kærkomnar.
Frábært hlaup
Við urðum töluvert vör við hlaupið á meðan við vorum í Færeyjum. Stærð hlaupsins eða öllu heldur smæð þess býður upp á að það er mikið spjallað við aðra þátttakendur. Við sáum hlaupara í flugvélinni, í bænum kvöldið fyrir hlaupið, á veitingastöðum og á ferðamannastöðunum eftir hlaupið.
Færeyingar taka sérstaklega vel á móti Íslendingum. Flestir sem við hittum höfðu komið til Íslands en undarlega fáir Íslendingar hafa farið til Færeyja.
Þórshafnarmaraþonið hefur stækkað ár frá ári. Hlaupið var haldið í fyrsta skipti árið 2003 og fyrir örfáum árum tóku nánast eingöngu heimamenn þátt. Í ár voru erlendir þátttakendur hins vegar hátt í 200 í heilu og hálfu maraþoni enda æ fleiri að uppgötva hversu einstakt hlaupið er og ólíkt öllum öðrum. Flugferðum til Færeyja hefur fjölgað og fargjöld hafa lækkað og því ljóst að hlaupið á eftir að vaxa mjög á næstu árum.
Við vorum spræk sem lömb eftir hlaupið og skelltum okkur á Koks, frægasta veitingastað Færeyja þar sem við áttum ógleymanlegt kvöld. Þar fengum við að bragða á þjóðarréttum Færeyinga eins og ræstum fiski og skerpikjöti ásamt ýmsum öðrum lystisemdum. Staðurinn hlaut fyrr á árinu fyrstu Michelin stjörnu þeirra Færeyinga. Það er því vissara að panta borð strax fyrir 2018!
Við erum strax farin að hugsa um næstu Færeyjaferð. Það er víst undurfagurt hálfmaraþon í Vágum í September….
Myndir : Torshavn Marathon og Faroes Photos.